Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands undirbýr nú áætlun sem felur í sér að peningaprentvélar Englandsbanka verði settar í gang og peningamagn í umferð aukið verulega.

Þetta kemur fram í breska blaðinu The Daily Telegraph í dag en þar er greint frá því að ríkisstjórn Bretlands hafi af því áhyggjur að lækkun stýrivaxta sé ekki nóg til að koma hjólum hagkerfisins í gang á nýjan leik.

Englandsbanki mun í dag tilkynna stýrivaxtaákvörðun sína og búist er við að stýrivextir, sem nú eru 2%. Hins vegar gera hagfræðingar og aðrir sérfræðingar ráð fyrir því að það sé ekki nóg þar sem vandamálið sé ekki kostnaður við lántöku heldur lítið framboð af lánsfé.

Þannig verði nauðsynlegt að auka peningamagn í umferð til að hægt verði að lána fjármagn á ný, bæði til einstaklinga og fyrirtækja, sem ríkisstjórn Bretlands telur að muni koma hagkerfinu almennilega í gang á ný.

Ávísur á verðbólgu, segja Íhaldamenn

Ekki eru allir á eitt sáttir við þetta. George Osborne, skuggafjármálaráðherra Íhaldsmanna sagði við fjölmiðla í gær að sú staðreynd að ríkisstjórnin sé jafnvel að íhuga að auka peningamagn í umferð sanni að Gordon Brown, forsætisráðherra hafi leitt Bretland í átt að gjaldþroti.

„Að prenta peninga er merki um lokatilraun örvæntingafulla ríkisstjórna og gerist þegar allt annað hefur farið úrskeiðis. Það má vel vera að það sé lokaúrræði ríkisstjórnarinnar til að forðast samdrátt en þetta er ávísun á hækkun verðbólgu,“ segir Osborne.