Ítalska flugfélagi Alitalia á ekki sjö dagana sæla. Félagið beitir nú öllum mögulegum ráðum til þess að koma í veg fyrir gjaldþrot. Sótt hefur verið um gjaldþrotavernd sem tryggir með dómsúrskurði vernd gegn lánadrottnum.

Alitalia tapar nú sem svarar tveimur milljónum evra á dag og lifir félagið á 300 milljón evra láni frá ítalska ríkinu.

Gjaldþrotaverndin tryggir félaginu lífsrými til þess að taka á eigin málum.

Fréttasíða breska ríkisútvarpsins, BBC, greinir frá þessu.

Áform hafa verið uppi um að skipta félaginu upp í tvö félög. Þannig væri hægt að selja hluta félagsins úr landi. Ítalska ríkið á 49 prósenta hlut í félaginu.

Framtíð Alitalia ræðst nú af fjárfestingum félagsins og því hvort félagið nái að sannfæra stéttarfélög um hópuppsagnir.

Bæði Air France og hið hollenska KLM hafa lýst áhuga sínum á því að kaupa hluta rekstursins. Fyrri hugmyndir um að selja Alitalia hafa ekki gengið eftir, m.a. vegna ótta stéttarfélaga við hugsanlegar hópuppsagnir. Rekstur Félagsins hefur gengið illa undanfarin ár meðal annars vegna lélegra stjórnunarhátta og hækkandi eldsneytisverðs.