*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Erlent 2. maí 2017 18:30

Alitalia á seinasta snúning

Alitalia hefur á síðustu tíu árum fengið ríflega 7 milljarða evra frá ítalska ríkinu. Nú þarf félagið aðra ölmusu.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Ítalska flugfélagið Alitalia varð gjaldþrota árið 2008, en þá lögðu ítalskir skattgreiðendur og Benedikt Páfi blessun sína yfir félagið. Aðeins sex árum síðar fór félagið aftur að glíma við skuldavanda, en þá kom ríkið félaginu enn og aftur til bjargar.

En þrátt fyrir það að Alitalia hafi fengið ríflega 7 milljarða evra á síðustu tíu árum, er ólíklegt að félagið haldi sér á lofti án frekari aðstoðar hins opinbera. 

Yfirvöld eru nú að meta það hvort hægt verði að kasta enn meira fjármagni í félagið, áætlunarflug munu þá haldast óbreytt á meðan sú athugun stendur yfir.

Ef allt fer á versta veg, verður félagið tekið til gjaldþrotaskipta. Verkalýðsfélögin munu þá geta fagnað árangri sínum, en í síðustu viku kusu starfsmenn gegn neyðartillögum sem hefðu tryggt félaginu fjármagn.

77% Ítala telja það æskilegt að félagið verði látið falla. Þó gæti það verið að stjórnmálamenn landsins reyni að rétta félaginu hjálparhönd, enda eru 12.500 störf í húfi og stutt í kosningar.

Stikkorð: Flug Ítalía Alitalia