Ríkisskattstjóri gaf út álit í síðustu viku þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að mismunur samþykktra krafna í þrotabú og útgreiðslu til kröfuhafa, þ.e. í raun munur eigna og skulda, skyldi teljast sem eftirgjöf skuldar í skattalegu tilliti við skiptalok. Munurinn myndi því teljast sem tekjur hjá þrotabúinu og bera tekjuskatt.

Álitið stendur hins vegar ekki því fáeinum dögum síðar afturkallaði ríkisskattstjóri álitið þar sem í ljós kom að undirbúningi hafði verið áfátt. Ekki væri nægjanlega glöggur munur gerður á eftirgefnum skuldum rekstraraðila og ógreiddum kröfum við lok gjaldþrotaskipta. Kveðst hann munu gefa út nýtt álit og er ekki hægt að útiloka að komist verði að sömu niðurstöðu.

Páll Eiríksson í slitastjórn Glitnis segist ekki hafa kynnt sér álit ríkisskattstjóra í þaula, en það sem hann hafi lesið komi sér á óvart. „Verði þessi túlkun ofan á verður orðið ansi áhættusamt að lána mönnum fé. Fari fyrirtæki í gjaldþrot og ríkissjóður tekur bróðurpartinn af eignum þess með þessum hætti er hætt við því að lánakjör fari versnandi.“

Páll segist vera ósammála þeirri túlkun ríkisskattstjóra að mismunur á kröfum og eignum við gjaldþrotaskipti feli í sér eftirgjöf krafna. „Það horfir öðruvísi við í nauðasamningum, því þar fallast kröfuhafar beint á eftirgjöf hluta sinna krafna. Það á ekki við um gjaldþrotaskipti.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .