Nýsköpunarmót Álklasans verður haldið í hátíðarsal Háskóla Íslands á þriðjudaginn. Þar verður m.a. til umfjöllunar framþróun á sviði snjallvæðingar, minni orkunotkunar og tæknilausna í áliðnaði. Þá verður sýndur fyrsti raðframleiddi íslenski jeppinn, sem framleiddur er úr áli og er í þróun hjá sprotafyrirtækinu Ísar, en grindin af honum var afhjúpuð á Nýsköpunarmótinu fyrir tveimur árum. Einnig mun Guðbjörg Óskarsdóttir klasastjóri Álklasans og forstöðumaður hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands afhenda hvatningarviðurkenningar til háskólanema.

„Umhverfi áliðnaðar er síbreytilegt og þurfa fyrirtækin stöðugt að þróa nýjar lausnir – annars missa þau samkeppnishæfnina,“ segir Guðbjörg. „Álframleiðsla er því mjög fjárfestingadrifin. Sífellt meira er lagt upp úr orkusparandi lausnum, sem er ekki aðeins hagkvæmt, heldur gerir það framleiðsluferlið umhverfisvænna. Við munum heyra af slíku verkefni sem HRV vann að í Karmoy í Noregi, verkefni Alcoa , Rio Tinto og Apple í Kanada um óbrennanleg rafskaut og sömuleiðis þróunarverkefni NMÍ og Arctus hér á landi.“

Hún segir fjórðu iðnbyltinguna og snjallvæðingu bjóða upp á mikil tækifæri í áliðnaði, betri stýringu framleiðsluferla, viðhaldsferla og öryggismál.

„Við erum sterk í hugvitsdrifinni nýsköpun, hvort sem um ræðir í afþreyingargeiranum eða tæknigeiranum. Nú þegar eru komnar fram margs konar lausnir á þessu sviði og tæknifyrirtæki eins og DTE eru að hasla sér völl. Þau hafa þróað sjálfvirkan greiningarbúnað sem settur var á markað síðastliðið haust og er erindi um það á Nýsköpunarmótinu.“

Að sögn Guðbjargar er stöðugt unnið að bættri hráefnisnýtingu, fullnýtingu afurða og áframvinnslu hroða. „Sprotafyrirtæki á borð við Gerosion í samstarfi við Elkem og Nýsköpunarmiðstöð Íslands leggja áherslu á að þróa lausnir á þessu sviði og eru einnig með kynningu á Nýsköpunarmótinu. Þá má nefna að niðurstöður nemendaverkefnis Leós Blæs Haraldssonar sem lýtur að varmaendurvinnslu frá Fjarðaáli verður kynnt, en það fékk hvatningarviðurkenningu Álklasans í fyrra.

„Nýting umframvarma í iðnaðarferlum er liður í því að huga að fullnýtingu í framleiðsluferlum,“ segir Guðbjörg. „Það er mikilvægt í þeirri miklu þróun sem nú á sér stað í álverum að hugað sé vel að þeim verðmætum sem geta legið í hugverkinu sjálfu og því fengum við Einar Karl Friðriksson hjá Árnason Faktor til að fara yfir hvað hafa ber í huga verðandi hugverkavernd.“
Nýsköpunarmótið fer fram á þriðjudaginn klukkan 14 í hátíðarsal Háskóla Íslands. Nánar má fræðast um dagskrá Nýsköpunarmótsins á heimasíðu Háskóla Íslands .