Alþjóðabankinn hefur samþykkt að veita ríkisstjórn Mexíkó 1,5 milljarða dala lán í þeim tilgangi að styrkja efnahag landsins en það sem af er ári hefur verið neikvæður hagvöxtur þar í landi.

Láninu er, skv. tilkynningu frá Alþjóðabankanum, ætlað að styrkja efnahaginn, fjölga störfum og koma fjármálamörkuðum landsins á hreyfingu á ný.

Þá kemur jafnframt fram í tilkynningunni að stjórnvöld í Mexíkó hafi þegar brugðist við athugasemdum bankans við stjórn efnahagsmála og séu vel í stakk búin til að taka við láninu.

Þetta er annað lánið sem bankinn veitir á stuttum tíma en í september lánaði bankinn Indlandi 4,3 milljarða dali.