Hlutabréf lækkuðu um allan heim í dag. Í Evrópu lækkuðu markaðir almennt um 2-3% og svipaða sögu var að segja í Bandaríkjunum, en þar var dagurinn í dag sá versti í tvo mánuði á hlutabréfamarkaði, sem þar til fyrir viku hafði hækkað verulega frá áramótum. Alcoa og Bank of America voru á meðal þeirra sem leiddu lækkanir dagsins, en þau lækkuðu bæði um tæp 10%. Þetta kemur fram hjá MarketWatch.

Meðal ástæða lækkunar á mörkuðum er versnandi hagvaxtarspá Alþjóðabankans fyrir þetta ár. Bankinn hafði áður spáð 1,7% samdrætti en spáir nú samdrætti upp á 2,9%, að því er segir í frétt FT.

Það voru ekki aðeins hlutabréfamarkaðir sem lækkuðu. Hrávörumarkaðir og gjaldmiðlar þróunarríkja fóru sömu leið í dag þar sem áhættufælnir fjárfestar færðu sig yfir í Bandaríkjadal, jen og ríkisskuldabréf, að því er segir í frétt FT.