International Finance Corporation (IFC) sem er hluti af Alþjóðabankanum (World Bank Group) hefur óskað eftir því að kaupa hlut í Creditinfo Group Ltd.

Að sögn Reynis Grétarssonar, framkvæmdastjóra Creditinfo, kom ósk um kaupin á miðju síðasta ári og hafa sérfræðingar IFC unnið við að taka út starfsemi félagsins síðan. Taldi Reynir mjög líklegt að af kaupunum yrði en það ætti þó eftir að kynna málið betur fyrir hluthöfum Creditinfo. Stærstu hluthafar félagsins og þeir einu sem eiga meira en 10% eru Landsbankinn, KB banki og Reynir.

"Mér þykir líklegt að af þessu verði enda myndi þetta styrkja stöðu félagsins á þeim mörkuðum sem það er að starfa á. Þetta er líka mikil traustsyfirlýsing fyrir okkur og starfsemi okkar enda hefur Alþjóðabankinn aðeins fjárfest í einu slíku fyrirtæki áður," sagði Reynir. IFC er sú deild

Alþjóðabankans sem vinnur við að efla starfsemi milli fyrirtækja og miðast hámark fjárfestinga þeirra við 20% hlut. Að sögn Reynis er líklegt að IFC kaupi 10% hlut og yrði það greitt í formi nýs hlutafjár. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er Creditinfo Group metið á um tvo milljarða króna í viðskiptunum.

Lánstraust hf. var stofnað í janúar 1997, að danskri fyrirmynd. Í upphafi snerist starfsemin einungis um rekstur Vanskilaskrár en fljótlega fjölgaði þjónustuþáttunum. Seinna sama ár hófst miðlun upplýsinga úr

Hlutafélagaskrá og jafnframt bauðst viðskiptavinum í fyrsta sinn aðgangur að Rekstrarsöguskrá.  Árið 1999 bættust ársreikningar í safn þjónustuþátta en frá þeim tíma hefur vörunum fjölgað talsvert og þær þróast til móts við þarfir viðskiptavinanna.

Um mitt ár 2002 stofnaði Lánstraust hf. dótturfyrirtæki á Möltu og í framhaldi af því í fleiri löndum. Var sérstakt félag, Creditinfo Group hf., stofnað til að vera móðurfélag starfseminnar erlendis og síðar einnig á Íslandi. Creditinfo Group er nú með starfsemi í fjölda landa, einkum í Mið- og Austur-Evrópu. Starfsmenn félagsins eru 344, þar af um 60 á Íslandi. Á síðasta ári kom ríflega 50% af veltu félagsins frá erlendri starfsemi.