,,Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur dregið okkur á asnaeyrunum. Þeir hafa verið seinir til og verið með mjög furðuleg skilyrði, sérstaklega í sambandi við vext. Það er alveg furðulegt að bankarnir skuli vera fullir af peningum og menn skuli ekki lækka vexti til að örva útlán og þar með atvinnustarfsemi,“ sagði Jafet Ólafsson, framkvæmdastjóri Veigs fjárfestingafélags.

Jafet sagðist telja að það stríddi gegn öllum hagfræðilögmálum að krónan skuli ekki koma til baka um a.m.k 15%, sérstaklega í ljósi þess hve viðskiptajöfnuðurinn er hagstæður. ,,Öll teikn benda til þess að krónan ætti að koma til baka um 15 til 20% en maður verður svartsýnni á að þetta sé að ganga til baka eftir því sem mánuðirnir líða. Maður óttast að þetta sé ástand sem vari í einhvern tíma.“

Jafet sagðist að öðru leyti telja að það hefði spilast þokkalega úr málum hér á landi miðað við svartsýnustu spár. Hann sagðist hafa óttast að niðursveiflan yrði dýpri, sérstaklega hvað varðar atvinnuleysi. ,,Við eigum hins vegar nokkra mánuði í land ennþá,“ sagði Jafet.