Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur lækkað hagvaxtaspá sína fyrir næstu 2 ár. Ný spá sjóðsins segir að hagvöxtur í heiminum muni lækka niður í 3,7% á árinu 2008 og 2009, en hann var 4,95% á árinu 2007.

Samkvæmt spánni munu Bandaríkin fara fyrir þessari lækkun hagvaxtar, en Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn telur að þau muni sigla inn í lítils háttar samdrátt (e. mild recession) á þessu ári.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn segir að niðursveiflan á heimsvísu gæti mögulega orðið verri en spáð er, og að líkurnar séu einn á móti fjórum að það verði samdráttur á heimsvísu (e. global recession), en það þýðir að hagvöxtur fer niður fyrir 3%.

Spáð er að hagvöxtur í Bandaríkjunum verði einungis 0,5% á árinu 2008 og 0,6% 2009. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir jafn framt 1,6% hagvexti í Bretlandi á þessu og næsta ári.