Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) tilkynnti í morgun að sjóðurinn hygðist selja hluta af gullforða sínum til að auka lausafé sjóðsins.

Vonast er til þess að sjóðurinn nái auka lausafé sitt um 6 milljarða bandaríkjadala eða því sem samsvarar um 433 milljörðum íslenskra króna með sölu á um 12% hluta gullforða sjóðsins að sögn fréttavefs BBC.

Fjárfestar freista þess um þessar mundir að fjárfesta í bæði olíu og gulli til að tryggja fjármagn sitt í Bandaríkjadölum vegna lækkandi gengis dollarans. Því þykir tímasetning Alþjóðagjaldeyrissjóðsins heppileg að mati viðmælanda BBC.

Sala sjóðsins á hluta gullforða síns er háð samþykki Bandaríkjaþings auk þess sem þau 185 ríki sem eiga fulltrúa hjá sjóðnum þurfa að samþykkja söluna. Þá sagði sérfræðingur á vegum sjóðsins að salan muni taka nokkurn tíma, hugsanlega á annað ár.

Dominique Strauss-Kahn, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði söluna erfitt skref en nauðsynlegt til að tryggja fjárhagslegan grundvöll sjóðsins.

Únsas af gulli kostaði á mörkuðum í New York í gær 926,8 Bandaríkjadali.