Alþjóðaorkumálastofnunin (IEA) mun mæla með því í næstu viku að ríkisstjórnir um allan heim styðji við byggingu nýrra kjarnorkuvera, en það hefur ekki gerst í 32 ára sögu stofnunarinnar, segir í frétt Financial Times.

Margar þjóðir eru nú þegar með kjarnorkuver á teikniborðinu, þar á meðal Indland, Kína, Bandaríkin og Frakkland. Bretland hyggur á að stækka við núverandi kjarnaofna sína, en aðrar þjóðir eru algerlega mótfallnar byggingu nýrra kjarnaofna þar á meðal Þýskaland og Spánn.

Forstjóri hagfræðisviðs IEA, Fatih Birol, segir að það þurfi að taka ákvarðanir helst í dag áður en óafturkræft hættuástand skapast í loftslagsbreytingum og orkuframboði. Hann segir að stjórnmálamenn verði nú að sannfæra kjósendur um að kjarnorka sé örugg og nauðsynleg. Einnig þurfi þeir að sjá til þess að fjármálaumhverfi kjarnorkuvera sé fjárfestum aðlaðandi.

IEA mun birta skýrslu um málið, en hún er sú fyrsta sem má lýsa sem hvatningu frekar en greiningu. Helstu iðnríki heimsins, G8 þjóðirnar svokölluðu, báðu samtökin um að gera fyrir sig leiðbeiningar um hvernig ríkisstjórnir geti barist gegn loftslagsbreytingum og orkuskorti. Í skýrslunni mun segja að kjarnorka sé nauðsynleg öllum þjóðum svo ekki fari sem stefnir. Skýrslan undanskilur þó þær þjóðir þar sem nýting kjarnorku er ólögleg, til dæmis Austurríki. Stofnunin hefur ályktað að kjarnorka geti staðist kostnaðarsamanburð við nýtingu kola og gass til orkuframleiðslu.

Briol segir að spá stofnunarinnar að 17 þúsund milljarða Bandaríkjadala (1,147 billjónir króna) þyrfti til fjárfestinga í orkugeiranum á heimsvísu fram til ársins 2030 hafi hækkað verulega vegna verðbólgu. Í skýrslunni er rannsakað hvort að aukning fjárfestinga orkufyrirtækja á síðastliðnum fimm árum hafi farið í að auka framleiðslu eða vegna aukins kostnaðar.

Í skýrslunni kemur fram að orkuframleiðsla heimsins sé nú mengandi, dýr og viðkvæm, en Birol segir að markmiðið hafi verið að bjóða aðra leið sem væri hrein, örugg og ódýrari. Í skýrslunni verður hvatt til þess að nýting orku verði bætt, sérstaklega í samgöngum og í raftækjum heimilanna. Einnig verður hvatt til að aukið verði við sjálfbæra orkuframleiðslu á borð við lífrænt eldsneyti á bifreiðar og vindorku.

Aðeins örfá fyrirtæki eru leiðandi í byggingu kjarnaofna. Franska fyrirtækið Areva er einn af stærri framleiðendum Evrópu, en Westinghouse og GE eru með þeim stærri í Bandaríkjunum. Í Evrópu er líklegt að kjarnorkuver verði byggð og stýrt af stærri orkufyrirtækjum á borð við Electricite de France, Eon og RWE, en í Kína, Indlandi og Rússlandi myndu ríkisrekin fyrirtæki sjá um byggingu nýrra kjarnorkuvera.