Grein um endurbætur á framleiðsluferli Norðuráls ehf. á Grundartanga var kynnt á alþjóðlegri ráðstefnu um tækni í álverum, sem haldin var fyrir skömmu í Queensland í Ástralíu. Hlaut greinin fyrstu verðlaun í lok ráðstefnunnar. Höfundur greinarinnar er Willy Kristensen, framkvæmdastjóri rafgreiningasviðs hjá Norðuráli og meðhöfundar eru Óskar Jónsson, framkvæmdastjóri tæknisviðs og Gauti Höskuldsson, verkfræðingur kerskála. Er þetta er ein helsta viðurkenning sem veitt er á ráðstefnum sem þessum í heiminum segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Ráðstefnan hefur verið haldin á þriggja ára fresti í 21 ár og þar er lögð áhersla á hvernig unnt er að hámarka árangur í álverum. Verðlaunin eru tileinkuð einum þekktasta sérfræðingi og vísindamanni á sviði áliðnaðar, Barry Welch, prófessor.

Dómnefndinni þótti afar mikið til um þann árangur sem hefur náðst í að bæta nýtni framleiðslueininga hjá Norðuráli á Grundartanga. Norðurál telst nú vera í hópi 10 fremstu álvera í heiminum miðað við allmarga lykilmælikvarða sem notaðir eru innan greinarinnar. Auk þess að draga úr framleiðslukostnaði með því að bæta nýtingu forskauta um 20% og bæta orkunýtingu um 4%, náði álverið einnig góðum árangri í öryggismálum starfsmanna. Sérstaklega þótti Norðurál skara fram úr í lækkun á tíðni svokallaðra spennurisa en sá árangur stuðlar jafnframt að lágmörkun á losun kolefnasambanda.

Willy Kristensen lítur á verðlaunin sem viðurkenningu á frábærri frammistöðu allra starfsmanna kerskála Norðuráls. Hann bendir sérstaklega á að framfarirnar hafi verið í samræmi við þá áherslu Norðuráls að vernda umhverfið eins og unnt er, þannig að álverið skipi sér í fremstu röð í heimunum á þessu sviði. Það hafi verið honum mikil ánægja að geta lagt sitt af mörkum til umhverfismála í nýjum heimkynnum segir í tilkynningu fyrirtækisins.

Willy Kristensen er liðlega fimmtugur, borinn og barnfæddur í Lofoten í Noregi. Hann er verkfræðimenntaður og hóf störf hjá Norðuráli 1999. Þess má til gamans geta að Willy er söngelskur og á ráðstefnunni hlaut hann sérstök keppnisverðlaun fyrir söng sinn á frumsömdu efni, en hér heima liðkar framkvæmdastjórinn raddböndin með Fríkirkjukórnum.