Forsvarsmenn seðlabanka og eftirlitsaðila frá 27 ríkjum hafa komist að samkomulagi um hertar reglur á bankamarkaði með setningu Basel III regluverks, að því er heimildir Reuters fréttastofu herma.

Nefndin er leidd af seðlabankastjóra evrópska seðlabankans, Jean-Claude Trichet. Hún hefur fundað í dag og hefur samkvæmt heimildum Reuters meðal annars komist að samkomulagi um að reglur um lausafjárstöðu banka verði hertar. Það verði gert til að styrkja banka við erfiðar aðstæður á fjármálamarkaði.

Flest atriða Basel III regluverksins voru samþykkt á fundi í júlí síðastliðnum. Fundurinn í dag var haldinn til að ganga frá lausum endum. Búist er við tilkynningu frá nefndinni seinni partinn í dag.

Eitt af meginatriðum fundarins er ákvörðun um hversu mikið lausafé verði farið fram á og hversu langan tíma aðlögunarferli á að taka.

Búist er við að leiðtogar G20 ríkja samþykki nýjar reglur á næsta fundi G20 ríkja sem haldinn verður í nóvember.