Útboði á nýjum hlutum í Kaupþingi banka er lokið með góðum árangri segir í tilkynningu félagsins. Verð á hlut í útboðinu nemur 750 íslenskum krónum eða 75 sænskum krónum. Umframeftirspurn var eftir hlutum í útboðinu og þeim hefur verið úthlutað til breiðs hóps alþjóðlegra fagfjárfesta segir í tilkynningunni.

Heildarafrakstur (e. gross proceeds) af útboðinu nemur 49.500 milljónum íslenskra króna sem samsvarar 547 milljónum evra.

Stjórn Kaupþings hefur samþykkt að auka hlutafé bankans um 66.000.000 hluti.

Með útboðinu náðist það markmið að fjölga alþjóðlegum fjárfestum í hluthafahópi Kaupþings banka.


Afrakstur útboðsins að frádregnum kostnaði (e. net proceeds) verður notaður til að styrkja eiginfjárgrunn Kaupþings og styðja við bakið á frekari vexti bankans.


Umsjónaraðilar útboðsins og áskriftarsöfnunar voru Citigroup Global Markets Limited og Morgan Stanley & Co. International Limited. Þriðji umsjónaraðili í útboðinu var Fox-Pitt, Kelton N.V. Kaupþing banki aðstoðaði við sölu hlutanna (e. selling agent).

Sigurður Einarsson, stjórnarformaður Kaupþings banka segir um niðurstöðuna í tilkynningu bankans:  ?Ég er mjög ánægður með niðurstöðu útboðsins, sér í lagi mikinn áhuga alþjóðlegra fagfjárfesta. Við náðum því marki sem við settum okkur ? að breikka fjárfestagrunn Kaupþings í samræmi við aukna starfsemi bankans á alþjóðlegum vettvangi.?