Innan raða Evrópska seðlabankans – einkum meðal þeirra sem aðhyllast þá íhaldssömu peningastefnu sem rekin var í tíð seðlabanka Þýskalands – eru uppi áhyggjur af því að frekari alþjóðavæðing evrunnar gæti gert peningastefnuna flóknari og óskilvirkari. Þetta kom fram í erindi Richards Portes, hagfræðiprófessors við London Business School, sem hann flutti á ráðstefnu á vegum Rannsóknarstofnunar í fjármálum við Háskólann í Reykjavík. Vísaði Portes meðal annars í ummæli Jürgens Stark, stjórnarmanns í Evrópska seðlabankanum, sem sagði í ræðu sinni á Viðskiptaþingi á liðnu ári, að bankinn myndi ekki styðja einhliða evruvæðingu Íslands. Þau ummæli endurspegla mjög vel þá þýsku arfleifð sem á sér öfluga fótfestu innan Evrópska seðlabankans, að sögn Portes. Hann telur hins vegar slíkar áhyggjur ofmetnar, auk þess sem það sé hvorki hægt að hafa áhrif á né spá fyrir um erlenda eftirspurn eftir evrum.

Af þeim sökum, sagði Portes, er erfitt að halda því fram að frekari alþjóðavæðing evrunnar myndi flækja peningastefnu bankans. Í erindi sínu, sem bar heitið „Evran sem alþjóðlegur gjaldmiðill: Kostnaður og ávinningur fyrir evrusvæðið“, sagði Portes að evran væri nú þegar, upp að vissu marki, alþjóðlegur gjaldmiðill.

_______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .