Verslanakeðjan All Saints, sem Baugur á 35% hlut í, hyggst opna verslanir í Miðausturlöndum og í Norður-Afríku á nýju fjárhagsári, sem hefst í febrúar. Þetta kemur fram í frétt Retail Week, þar sem segir að sala keðjunnar hafi aukist um 45% á fjárhagsárinu sem lýkur í dag.

Ætlunin mun einnig vera að opna fyrstu stöku verslanirnar í Berlín, Amsterdam og Kaupmannahöfn á næsta fjárhagsári. Keðjan opnaði 15 verslanir á því fjárhagsári sem nú er að ljúka, þar með talið í París og Antverpen. Þá eru verslanir All Saints á Íbísa, í Illum í Danmörku og hér á landi.

Í frétt Retail Week er haft eftir framkvæmdastjóra All Saints að keðjan hafi gert betur en keppinautarnir. Veltan á því fjárhagsári sem er að ljúka er sögð 104 milljónir punda og hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, á milli 12 og 13 milljónir punda.