Fjallað var um skuldauppgjör Björgólfs Thors í Viðskiptablaðinu í síðustu viku en í stuttu máli felur það í sér að allur arður af eignum hans mun á næstu árum renna beint til kröfuhafa þangað til skuldirnar eru uppgreiddar.

Aðspurður um uppgjörið og hvaða eignir verða áfram á hendi Björgólfs Thors segir hann að í raun muni hann halda áfram öllum sínum eignum og fara fyrir þeim.

Kröfuhafar muni hafa forgang að eignunum, það eigi við um allt hans eignasafn. Sú breyting hafi hins vegar orðið á, frá því sem áður var, að einstaka kröfuhafar hafi haft veð í einstökum eignum en eftir því sem Björgólfur Thor lýsir sjálfur má líkja þessu við að búið hafi verið til nokkurs konar samsteypa eigna sem kröfuhafar hafi aðgang að eftir vægi krafna. Inni í þessu eignasafni má einnig finna persónulegar eignir, s.s. sumarbústaðajörð á Íslandi, fjölskylduhúseign í Reykjavik og fleira. Það eru að sögn Björgólfs Thors skuldlausar eignir og því lagðar inn sem eigið fé.

„Þarna eru allar mínar eignir undir,“ segir hann.

„Í raun má segja að þarna sé orðið til eignahlutafélag og kröfuhafarnir eru stærstu hluthafarnir. Það sem hins vegar er ólíkt öðrum hlutafélögum er að ákveðnum forsendum uppfylltum munu þeir með tímanum hverfa sem „hluthafar“ og ég gæti fengið aftur full yfirráð yfir þessum eignum.“

Björgólfur Thor áætlar að uppgjörið muni taka þrjú til sex ár, það séu raunhæf tímamörk, þótt hann útiloki ekki að það gæti klárast fyrr.

En augljós spurning er, hvernig kemstu hjá því að verða persónulega gjaldþrota?

„Með því að semja við alla mína kröfuhafa með sanngirni, gagnsæi og fullt uppgjör að leiðarljósi. Ég tefldi öllum mínum eignum fram,“ svarar Björgólfur Thor að bragði.

„Ég hef ekki búið á Íslandi í rúm tuttugu ár og á því lítinn lífeyri inni hér á landi. Hins vegar hef ég fært þá peninga sem ég hef ætlað fyrir mig og fjölskyldu mína í framtíðinni inn í erlenda eignarsjóði, svokallaða trust funds. Þetta eru töluverðar eignir. Ég setti þetta upp á sínum tíma því það hefur verið talsvert um gjaldþrot í minni fjölskyldu í gegnum tíðina og ég hef verið markaður af því. Þannig að ég hef alltaf hugsað fyrir því og sett til hliðar pening ef erfiðleikar kæmu upp. Ég hef hins vegar opnað þetta fyrir lánardrottnum núna og lagt þetta undir í skuldauppgjörinu. Þetta er eitthvað sem kröfuhafar hafa aldrei haft aðgang að áður. Þetta átti að verða fjölskyldusjóður en ég hef opnað það.“