Mismunandi reglur eru hjá Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans um sölu íbúðarhúsnæðis í eigu bankanna til starfsmanna þeirra að því er fram kemur í skriflegum svörum frá bönkunum við spurningum Viðskiptablaðsins. Munurinn liggur í því að starfsmönnum Landsbankans og Arion banka er heimilt að bjóða í fullnustueignir í eigu bankanna í gegnum fasteignasölur en starfsmönnum Íslandsbanka er það óheimilt. Fullnustueignir bankanna eru fasteignir sem teknar hafa verið yfir vegna greiðslufalls lántaka.

„Samkvæmt vinnureglum bankans mega starfsmenn ekki bjóða í eignir bankans og engar fasteignir hafa verið seldar starfsmönnum,“ segir í skriflegu svari frá Íslandsbanka. Í svari frá Landsbankanum segir hins vegar að starfsmenn megi bjóða í fullnustueignir bankans fari það í gegnum fasteignasala. „Að sjálfsögðu hafa starfsmenn Landsbankans möguleika á að bjóða í eignir eins og hver annar. Allar eignir fara í gegnum fasteignasala og eru þær ekki merktar sérstaklega sem bankaeignir,“ segir í svari frá Landsbankanum. Er það vinnuregla hjá bankanum að fullnustueignir séu auglýstar í að minnsta kosti viku áður en tekið er við tilboðum svo sem flestir geti gert tilboð. Í skriflegu svari frá Arion banka segir að afar sjaldgæft sé að starfsfólk kaupi fullnustueignir í eigu bankans en komi það til fari það ávallt í gegnum fasteignasölu líkt og með aðra sem vilja kaupa eignir bankans. Þá segir að ekki sé sérstaklega haldið utan um það í bankanum hvort það séu starfsmenn sem kaupa fullnustueignir að loknu hefðbundnu ferli hjá fasteignasala.

Samkvæmt svörum frá bönkunum eru allar fullnustueignir í eigu bankanna auglýstar á almennum markaði og seldar í gegnum fasteignasala og sé það gert samkvæmt vinnureglum bankanna. Þó segir í svari frá Landsbankanum að svo geti verið að einhverjar fasteignir hafi í upphafi verið seldar án auglýsinga en það sé þó reglan í dag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.

Leiðrétting: Í frétt Viðskiptablaðsins kemur einnig fram að fullnustueignir í eigu Íslandsbanka séu 435 og seldar eignir 673 á landinu öllu en á það við um íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Rétt er að bankinn á alls 279 íbúðarhúsnæði og hefur selt 492 íbúðarhúnsæði á landsvísu.