Allar íbúðir Íbúðalánasjóðs sem eru í leiguhæfu ástandi eru í útleigu og er það misskilningur að sjóðurinn liggi á leiguhæfum eignum sem hann leigi ekki út. Langflestar eignir sem sjóðurinn tekur yfir þarfnast lagfæringa og margar verulegra endurbóta. Þótt hægt sé að selja fasteignir á misjöfnu byggingarstigi eða í lélegu ástandi telur Íbúðalánasjóður ekki forsvaranlegt að bjóða slíkar íbúðir til leigu. Íbúðir sjóðsins sem ekki á að selja og eru orðnar hæfar til útleigu eru auglýstar eins fljótt og unnt er

Þetta segir í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði vegna frétta þess efnis að sjóðurinn eigi mannlausar blokkir á Selfossi. Fram kemur í tilkynningu frá sjóðnum að þvert á móti séu allar leiguhæfar íbúðir í umræddum blokkum nú þegar í útleigu. .

Í tilkynningu frá Íbúðalánasjóði segir:

„Umræddar blokkir á Selfossi reyndust í mun verra ástandi en gert var ráð fyrir og voru ekki hæfar til útleigu. Brunaþéttingar með lögnum standast ekki byggingarreglugerð, gólfefni eru ónothæf í leiguíbúðir og þarf að skipta um þau og margar íbúðir eru án þröskulda, svo fátt eitt sé nefnt.

Skortur á félagslegu húsnæði á ábyrgð sveitarfélaga

Íbúðalánasjóður segir að eignasvið sjóðsins vinni kerfisbundið að því að meta, standsetja og skrá íbúðir og ráði eftirspurn á hverju svæði miklu um forgangsröðun þeirra verkefna. Á Selfossi hafi íbúðir til leigu komið reglulega inn frá síðasta hausti. Eftirspurn á svæðinu hefur hinsvegar verið mjög sveiflukennd og mikil hreyfing verið á leigjendum. Til dæmis hafa um 35 leigjendur horfið úr leigu hjá sjóðnum á þessu svæði síðan í haust.

Nú er unnið að endurgerð átta íbúða í umræddum blokkum sem fara í útleigu um leið og þær eru tilbúnar. Fjórar nýuppgerðar íbúðir verða boðnar til leigu í þessari viku og er áhugasömum bent á að fylgjast með fasteignasíðum á mbl.is og fasteignir.is. Hægt er að skoða úthlutunarreglur leiguíbúða á heimasíðu Íbúðalánasjóðs, www. ils.is

Varðandi skort á íbúðum í félagslegu húsnæðiskerfi tekur sjóðurinn fram að slíkt framboð er alfarið á ábyrgð viðkomandi sveitarfélaga, en ekki Íbúðalánasjóðs.