Icelandair Group hefur lokið fjármögnun á öllum sex Boeing 737 Max farþegavélunum sem félagið klárar að fá afhendar í ár og á því næsta, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá félaginu.

Á milli jóla og nýárs sagði Viðskiptablaðið frá því að félagið hefði gengið frá fjármögnun fyrirframgreiðslna á þeim vélum sem félagið fær afhent í ár og á því næsta við félagið BOC Aviation. Nú hefur félagið samið um sölu og endurleigu á tveimur þessara véla við félagið SMBC Aviation Capital, en um er að ræða tæplega 9 ára leigusamning.

„Með því hefur félagið nú lokið fjármögnun á öllum sex Boeing 737 MAX flugvélum sem félagið mun fá til afhendingar frá Boeing árið 2019 en hinar þrjár vélarnar voru fjármagnaðar með samningi um sölu og endurleigu við BOCOMM Leasing Aviation, sbr. tilkynningu félagsins þann 16. maí 2017,“ segir í tilkynningu félagsins.

Samantekt um skuldabréfasamninga og hlutafjárútboð

Jafnframt er tekið saman í fréttatilkynningunni aðrar nýlegar fréttir frá félaginu eins og þær sem Viðskiptablaðið sagði frá fyrir jól um að nægilega stór hluti skuldabréfaeigenda félagsins hefðu samþykkt breytta skilmála þess. Felur það í sér að félagið greiðir upp skuldabréf fyrir 71 milljón dali, eða sem samsvarar tæplega 8,4 milljörðum króna 15. janúar næstkomandi.

Einnig að fyrir lok fyrsta ársfjórðung ársins verði boðið út hlutafé fyrir allt að 625 milljónir króna.
„Ofangreindar aðgerðir eru í takt við stefnu félagsins um að hafa ávallt til staðar sterka lausafjárstöðu og sveigjanlegan efnahagsreikning,“ segir Bogi Nils Bogason forstjóri Icelandair Group.

„Í árslok 2018 var félagið með ríflega 250 milljónir USD í handbært fé. Auk þess á félagið 40 óveðsettar flugvélar. Félagið er því vel í stakk búið til að takast á við sveiflur í rekstrarumhverfinu og grípa þau tækifæri sem kunna að skapast.“