Ásgeir Friðgeirsson, talsmaður Björgólfs Guðmundssonar, segir að allar rekstraráætlanir hafi staðist hjá West Ham.

„Áætlanir Björgólfs Guðmundssonar með West Ham hafa ekkert breyst,“ segir Ásgeir aðspurður í samtali við Viðskiptablaðið.

Tilefni fyrirspurnarinnar eru þau tíðindi að Alan Curbishley hafi látið af störfum sjálfviljugur sem knattspyrnustjóri West Ham í fyrradag.

Liðið er í eigu Björgólfs Guðmundssonar og Ásgeir situr í stjórn þess. Mikið var fjallað um málið á íþróttasíðum bresku blaðanna í gær.

Í viðtali við The Guardian segir Curbishley að erlendir fjárfestar og stjórnendur á borð við Björgólf Guðmundsson séu að ganga frá enskri knattspyrnu dauðri með stjórnunaraðferðum sínum.

Þeir séu með óraunhæfar væntingar, óþolinmæði og skilningsleysi á hlutverki framkvæmdastjóra knattspyrnuliðs.