Fossar markaðir halda Takk daginn í sjöunda sinn í dag, fimmtudaginn 25. nóvember, í samstarfi við viðskiptavini og samstarfsaðila. Allar þóknanatekjur vegna viðskipta á Takk daginn renna til góðs málefnis. Í ár renna þær til Jafningjaseturs Reykjadals, en það er ný þjónusta við börn og ungmenni með fötlun eða sérþarfir sem hóf starfsemi í tímabundnu húsnæði í Hafnarfirði í haust.

Um er að ræða nokkurs konar félagsmiðstöð þar sem ungmennin fá tækifæri til að skemmta sér með jafningjum við frístunda- og tómstundastörf.

Jafningjasetrið þarf varanlegan samastað

„Samkomutakmarkanir eru kannski ágætisáminning um hvað samskipti fólks skipta miklu máli og viðeigandi að styðja við verkefni þar sem börnum og ungmennum með fötlun eða sérþarfir er gert kleift að koma saman til að skemmta sér með jafningjum. Jafningjasetur Reykjadals er ný þjónusta sem fengið hefur afar góðar viðtökur og augljóst að hennar var mikil þörf. Það gleður okkur að fá að leggja lóð á vogarskálar þess að finna Jafningjasetrinu varanlegan stað við hæfi,“ segir Haraldur Þórðarson, forstjóri Fossa markaða.

Auk Fossa markaða taka Kauphöllin (Nasdaq Iceland), T Plús og auglýsingastofan TVIST þátt í Takk deginum með dyggilegum stuðningi. Felld eru niður gjöld á viðskiptum Fossa innan dagsins og renna þau til söfnunarinnar í staðinn og TVIST gefur vinnu sem tengist deginum. Einnig er hægt að veita bein framlög inn á bankareikning söfnunarinnar.

Framtak sem hefur fest sig í sessi

Stígandi hefur verið í söfnun Takk dagsins frá ári til árs. Í fyrra rann afrakstur Takk dagsins til Geðhjálpar, en þá söfnuðust rúmar 12,6 milljónir króna. Árið áður nýttist söfnunin í þágu langveikra og fatlaðra ungmenna þegar rúmar 11 milljónir runnu til Rjóðursins á Landspítalanum.

„Takk dagurinn hefur fest sig vel í sessi og viðskiptavinir Fossa fagna þessu árlega framtaki og tækifærinu til að staldra við og leggja eitthvað á vogarskálarnar til þeirra sem vinna að þýðingarmiklum málum,“ segir Haraldur og bætir við að vegna heimsfaraldurs Covid-19 hafi í fyrra þurft að þakka viðskiptavinum og velunnurum þátttökuna með rafrænum hætti í stað þess að fagna með gleðskap í lok dags líkt og árin þar á undan. „Þessi staða er aftur uppi og að þessu sinni höfum við leitað liðsinnis Sögu Garðars og Katrínar Halldóru við að halda uppi fjörinu á Takk deginum með skemmtiatriðum og stuttum myndböndum.“

Leikkonurnar Saga Garðarsdóttir og Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Takk dagurinn
Leikkonurnar Saga Garðarsdóttir og Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Takk dagurinn
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Leikkonurnar Saga Garðarsdóttir og Katrín Halldóra Sigurðardóttir sem aðstoða Fossa við að fagna Takk deginum með rafrænum hætti í ár.