*

mánudagur, 19. apríl 2021
Innlent 6. mars 2021 10:41

Allar upplýsingar á einum stað

Heimstorg Íslandsstofu aðstoðar íslensk fyrirtæki við að koma auga á viðskiptatækifæri í þróunarlöndum og víðar.

Sveinn Ólafur Melsted
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Heimstorg Íslandsstofu, ný upplýsinga- og samskiptagátt sem ætluð er fyrirtækjum sem leita viðskiptatækifæra í þróunarlöndum og víðar, var opnað í gær. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, opnaði Heimstorgið formlega í athöfn sem fram fór í Hörpu við þetta tilefni.

Heimstorgið er hugsað þannig að þar mætist atvinnulíf og stjórnvöld. Þangað geti fyrirtæki m.a. sótt upplýsingar um mögulegan stuðning við atvinnuþróunarverkefni í þróunarlöndum og víðar, þar sem Ísland veitir fjárframlög. Þá geta þau sótt þangað sérþekkingu, stuðning og leiðbeiningar um hvert annað er hægt að leita til að koma hugmyndum í framkvæmd.

Íslandsstofa hefur umsjón með rekstri Heimstorgsins en í baklandi þess verða sérfræðingar utanríkisráðuneytisins um atvinnulíf og þróunarsamvinnu, viðskiptaþjónustu, uppbyggingarsjóði í Evrópu, þ.m.t. Uppbyggingarsjóður EES, auk annarra samstarfssjóða milli stjórnvalda og atvinnulífs sem íslensk fyrirtæki hafa aðgang að. Auk þess verða sérfræðingar annarra ráðuneyta og tengiliðir um fjölþjóðlegar fjármögnunarstofnanir hluti af baklandinu. Á Heimstorginu verður haldið utan um þær leiðir sem fyrirtæki hafa til að njóta þjónustu og leiðsagnar hjá utanríkisþjónustunni, Stjórnarráðinu og eftir atvikum öðrum fyrirtækjum sem starfað hafa á svipuðum mörkuðum og stefnan er sett á. Þá verður hægt að sækja góð ráð um hvernig sé farsælast að sækja um styrki til valinna verkefna.

„Þetta gengur út á það að þau fyrirtæki sem vilja hasla sér völl á þessum vettvangi geti nálgast eins góðar upplýsingar og mögulegt er um hvernig þau geti nýtt sér þau tækifæri sem eru til staðar," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Hugsunin á bak við Heimstorgið sé að íslensk fyrirtæki geti nálgast allar upplýsingar sem þessu tengjast á einum stað, en áður hafi þessar upplýsingar verið á víð og dreif um stjórnkerfið.

„Það er oft erfitt fyrir fyrirtæki, sérstaklega lítil og meðalstór, sem vilja leita viðskiptatækifæra á þessum vettvangi að ákveða hvar eigi að byrja og hvernig þau eigi að bera sig að. Fyrirtækin geta þá leitað til Heimstorgsins og fengið leiðbeiningar og aðstoð um hvernig þau geti athafnað sig til þess að starfa á þessum vettvangi," útskýrir Guðlaugur Þór. „Ég hef lagt áherslu á að nýta krafta atvinnulífsins í þróunarsamvinnu, enda hefur verið ákall eftir því frá þeim þróunarríkjunum sem við eigum í samstarfi við. Á ferðum mínum til samstarfslanda okkar í þróunarsamvinnu hef ég hitt fjölda fólks sem undantekningalaust taldi brýnasta þróunarverkefnið vera að skapa fleiri launuð störf. Rétt eins og við Íslendingar vilja þessi lönd byggja upp sitt efnahagslíf og búa til atvinnutækifæri fyrir íbúa sína, þá sérstaklega unga fólkið."

Íslensk fyrirtæki búi yfir mikilli þekkingu og reynslu sem nýtist á þessum vettvangi. „Heimstorgið er liður í þeim áherslum mínum að byggja brú á milli atvinnulífs og stjórnvalda. Það sér það hver maður að þegar lítil og meðalstór fyrirtæki vilja athafna sig á þessum vettvangi getur reynst vandasamt að átta sig á hvar tækifærin eru og hvernig þau geta nýtt sér þá stuðningssjóði sem eru til staðar. Heimstorgið leysir þetta vandamál." Ráðherrann segir augljóst að það séu mikil tækifæri fyrir íslensk fyrirtæki að nýta sér umrædda sjóði og mun meira en gert hefur verið í gegnum tíðina.

Nánar er rætt við Guðlaug Þór í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér