Lyfjafyrirtækið Allergan, sem sameinaðist Actavis árið 2015 og seldi síðar samheitalyfjahluta Actavis til ísraelska félagsins Teva, er nú sagt vera að íhuga að draga fram tékkheftið að nýju.

Allergan er á vef The Wall Street Journal sagt áhugasamt um lyfjafyrirtækið Shire, sem meðal annars framleiðir Adderall, lyfið sem er notað í meðferð við ADHD. Shire er einn af helstu samkeppnisaðilum Allergan þegar kemur að augnlyfjum.

Fleiri hafa litið hýru auga til Shire en í vikunni bauð japanska lyfjafyrirtækið Takeda 60 milljarða dala í fyrirtækið en því tilboði var hafnað vegna þess að það þótti alltof lágt. Tilboðið var þó 50% yfir markaðsvirði Shire þegar fyrst heyrðist af áhuga Takeda í síðasta mánuði.

Eftir að Allergan tilkynnti að það væri að íhuga tilboð í Shire féllu hlutabréf félagsins um 7% og því lítur út fyrir að fjárfestar séu ekki spenntir fyrir yfirtökubaráttu.