Bandaríski lyfjarisinn Allergan Plc., keypti eigin bréf fyrir tvo milljarða Bandaríkjadala eða því sem nemur um 216 milljörðum íslenskra króna miðað við gengi dagsins í dag. Hlutabréfaverð félagsins hefur hríðfallið frá því í júlí. Um fimmtungur af markaðsvirði félagsins hefur þurrkast út frá því seint í júli að því er kemur fram í frétt Reuters um málið . Gengi bréfa félagsins hækkaði þó um nærri 4 prósentum í dag.

Einnig var tilkynnt um það að fjármálastjóri fyrirtækisins, Tessa Hilado, myndi segja af störfum. Fyrirtækið er mjög skuldugt og stefnir að því að greiða niður 3.750 milljónir Bandaríkjadala skuld á næsta ári. Alls nema langtímaskuldir Allergan 30,2 milljörðum Bandaríkjadala.

Fyrirtækið Allergan á rætur sínar að rekja til Íslands, en fyrirtækið hét áður Actavis. Það var selt til Watson Pharmaceuticals árið 2013 á 5,5 milljarða Bandaríkjadali. Áður hét félagið Actavis. Höfuðstöðvar Allergan eru í Dublin og er fyrirtækið skráð í Kauphöllina í New York. Árið 2015 seldi Allergan samheitalyfjastarfsemi sína til ísraelska fyrirtækisins Teva. Þá eignaðist fyrirtækið starfsemi Actavis í Hafnafirði. Nýverið var greint frá því að Teva hygðist vinda ofan af starfsemi Medis vegna erfiðleika í rekstri félagsins.