*

mánudagur, 25. október 2021
Innlent 10. febrúar 2020 14:09

Allergan tapaði 34,9 milljörðum

Tekjur fyrrum eigenda Actavis á Íslandi fóru framúr væntingum á fjórða ársfjórðungi. Tapið dróst saman um 95%.

Ritstjórn
Lyfjafyrirtækið Allergan var keypt árið 2015 af Actavis sem tók upp nafn þess fyrrnefnda.
Aðsend mynd

Tap lyfjafyrirtækisins Allergan á fjórða ársfjórðungi nam 276,6 milljónum Bandaríkjadala, eða sem samsvarar 34,9 milljörðum íslenskra króna. Það er þó minnkun um 95% frá sama tíma fyrir ári þegar félagið tapaði 5.348,1 milljónum dala.

Tekjur félagsins jukust um 6,6% milli ára, og námu 4,351 milljónum dala sem var umfram væntingar greinenda á markaði. Gengi bréfa félagsins hefur þó staðið í stað í viðskiptum dagsins eða í 197,05 dölum.

Allergan býst við að vera tekið yfir af félagin AbbVie sem greiðir nú 63 milljarða dala fyrir félagið, en félögin bíða samþykkis bandarískra og evrópskra samkeppnisyfirvalda, og virðist sem grænt ljós hafi fengist frá evrópskum í ársbyrjun.

Allergan var keypt árið 2015 af Actavis sem þá var ekki lengur í eigu Björgólfs Thor Björgólfssonar, og tók félagið upp nafn þess fyrrnefnda, seldi síðar samheitaverksmiðju sína hér á landi og seldi starfsemina hér til ísraelska lyfjafyrirtækisins Teva.

Brent Saunders forstjóri þakkar árangurinn markaðssetningu og samþykki lyfjaeftirlits Bandaríkjanna á nýju lyfi gegn mígreni, eyrnasýkingu og geðhvarfasýki, auk tveggja nýrra gerða Botox efnisins sem hefur verið ein helsta tekjulind félagsins.

Tap Allergan á árinu nam 4.445,3 milljónum dala, sem er 28,8% minna tap en árið 2018 þegar það nam 6.247,6 milljónum dala. Tekjur félagsins jukust um 1,9% milli ára, úr 15,787,4 milljónum dala í 16.088,9 milljónir dala.