Greiningardeild Glitnis segir væntingar um verðbólgu enn vera allháar í hagkerfinu, jafnt meðal almennings sem og forsvarsmanna fyrirtækja.

"Er líklegt að háar verðbólguvæntingar ásamt vísbendingu um aukna einkaneyslu á 2. ársfjórðungi ýti undir harðan tón í Peningamálum Seðlabanka á fimmtudag og hvetji bankann til að halda sig við þann vaxtaferil sem hann birti í lok mars, en samkvæmt honum lækkar bankinn ekki stýrivexti fyrr en í nóvemberbyrjun. Er það í samræmi við okkar spá um að stýrivextir verði óbreyttir eftir næstkomandi fimmtudag en taki að lækka fyrir árslok," segir Greiningardeildin.

Í hagvísum Seðlabanka fyrir júní kemur fram að samkvæmt könnun Gallup frá í maí mældust verðbólguvæntingar almennings til næstu tólf mánaða 5,3% og meðal forsvarsmanna fyrirtækja voru verðbólguvæntingarnar 3,6%. "Frá fyrri könnun Gallup í mars höfðu verðbólguvæntingar almennings lækkað, en hins vegar hækkað hjá forsvarsmönnum fyrirtækja. Báðir þessir hópar vænta þannig verðbólgu yfir markmiði Seðlabanka næsta árið, sem að öðru óbreyttu brýnir bankann til aðhaldssamari peningastefnu," segir Greiningardeildin.


"Auk verðbólguvæntinga vitna hagvísar Seðlabanka í ýmsar vísbendingar um að eftirspurn í hagkerfinu kunni að reynast allmikil næsta kastið. Þar á meðal eru niðurstöður nýlegrar könnunar á eftirspurn eftir starfsfólki meðal stærstu fyrirtækja, en samkvæmt henni taldi ríflega helmingur fyrirtækjanna að skortur væri á starfsfólki, tæplega helmingur þeirra hugðist fjölga starfsmönnum á næstu sex mánuðum og nær engir voru á þeim buxunum að fækka fólki. Auk þess benda aukin dagvöruvelta, fjölgun nýskráninga bifreiða og aukning í sementssölu án stóriðu til þess að töluverður gangur hafi verið í hagkerfinu á 2. fjórðungi ársins eins og við höfum bent á," segir Greiningardeildin.