Allianz, sem er langstærsta tryggingafélag Evrópu, skilaði 5 milljarða evra hagnaði á síðasta ári. Það samsvarar tvöföldum hagnaði ársins á undan. Alls jukust tekjur Allianz samstæðunnar um 3% á liðnu ári og námu ríflega 106 milljörðum evra. Hin jákvæða afkoma er í tilkynningu m.a. rakin til þess að engin meirháttar áföll urðu á árinu með tilheyrandi áhrifum á útgreiðslur til tryggingartaka.

Ekki kom til aukinna afskrifta fjármálaafurða vegna efnahagsörðugleikanna í heiminum, eins og nauðsynlegt reyndist vegna niðurfærslu grískra ríkisskuldabréfa á árinu 2011. Eignastýring Allianz skilaði einnig mjög góðri afkomu og ákveðið var á aðalfundi félagins í Munchen að greiða hluthöfum arð sem nemur 4 evrum og 50 evrusentum á hlut. Þýðir það að hluthafar munu fá í arð um 2.036,5 milljónir evra, andvirði um 330 milljarða króna.

Hagnaður eignastýringarhluta Allianz-samstæðunnar jókst um 34% og var í fyrsta skiptið hærri en hagnaður frá slysa- og líftryggingum, sem dróst aðeins saman.