Allar þrjár borvélarnar í aðrennslisgöngum Kárahnjúkavirkjunarinnar verða í gangi milli jóla og nýárs. Bormenn Impregilo fá frí um hádegi á aðfangadag en hefja störf aftur að morgni mánudags 27. desember og vinna til hádegis á gamlársdag. Þeir fá frí mánudaginn 2. janúar og byrja nýtt vinnuár að morgni 3. janúar. Bormennirnir vinna á tvískiptum vöktum milli jóla og nýárs. Starfsmenn Impregilo við að sprengja inntaksgöng Hálslóns vinna sömuleiðis um jólin á einni vakt en eiga frí á sama tíma og bormennirnir.

Jólin byrja hjá Fosskrafti í Fljótsdal miðvikudaginn 22. desember. Starfsmenn fyrirtækisins fara þá í frí fram yfir nýár. Sama á við um Arnarfell frá Akureyri. Starfsmenn Suðurverks eru komnir í jólafrí. Þeir hættu störfum í dag og koma til baka á nýju ári.

Starfsmenn framkvæmdaeftirlits Landsvirkjunar við Fremri-Kárahnjúk (VIJV) verða til skiptis á svæðinu um hátíðar. Helmingur liðsmanna eftirlitsins verða þar um jólin en hefur svo vaktaskipti við hinn helminginn milli jóla og nýárs eins og kemur fram á heimasíðu Kárahnjúka.