Allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur eru vanhæfir í máli sem WOW air hefur höfðað gegn ISAVIA ohf, Icelandair ehf  og Samkeppniseftirlitinu.

Málið snýr að því að í lok febrúar felldi áfrýjunarnefnd samkeppnismála úr gildi ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um að Wow Air skyldi fá tvo afgreiðslutíma á Keflavíkurflugvelli til að sinna flugi til N-Ameríku. Forsvarsmenn flugfélagsins hafa sagt þessa ákveðnu tíma vera forsendu fyrir því að félagið geti hafið flug til Bandaríkjanna. Vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndarinnar frestuðu þeir því að hefja flug til Norður-Ameríku.

Wow Air hefur nú kært ákvörðun áfrýjunarnefndarinnar og krefst ógildingar á úrskurði hennar. Friðþór Eydal, talsmaður Isavia, segir í svari til ferðavefjarins Túrista að krafist verði frávísunar á málinu á grundvelli aðildarskorts. Bendir hann á að áfrýjunarnefndin hafi verið búin að taka afstöðu til þess að Wow Air ætti ekki aðild að málinu.

Málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun en þar sem dómsstjóri hans var skipaður til formennsku í áfrýjunarnefnd Samkeppnismála þá eru allir dómarar við réttinn vanhæfir. Málið er því á borði dómstjóra Héraðsdóms Vestfjarða.