*

mánudagur, 6. desember 2021
Innlent 24. október 2021 18:02

Allir eiga að geta veitt gestum svör

Þau sem ráðin eru til starfa á fyrsta fimm stjörnu hóteli höfuðborgarsvæðisins fara í gegnum ítarlega þjálfun.

Sveinn Ólafur Melsted
Dennis Jung, framkvæmdastjóri The Reykjavík EDITION.
Eyþór Árnason

Dennis Jung, framkvæmdastjóri The Reykjavík EDITION hótelsins, er í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Þar er rætt við hann um ýmislegt sem viðkemur opnun hótelsins í Austurhöfn, og m.a. komið inn á starfsmannamálin.

Þau sem ráðin eru til starfa hjá The Reykjavík EDITION fara í gegnum ítarlega þjálfun þar sem gengið er úr skugga um að fólk búi yfir vissri þekkingu áður en því er hleypt til starfa. Hver einasti starfsmaður - hvort sem um sé að ræða stjórnanda, næturvörð eða þjón á veitingastaðnum - þarf að geta svarað spurningum sem brenna á gestum um viðfangsefni líkt og EDITION-vörumerkið, nærumhverfi hótelsins, helstu kennileiti Reykjavíkur o.s.frv.

„Við leggjum áherslu á að gefa fólki sem hefur störf hjá okkur öll nauðsynleg „verkfæri" svo það geti blómstrað í starfi," segir Dennis og útskýrir ráðningarferlið nánar:

„Ráðningarferlið hefst með því að fólk er tekið í viðtal, en það er misjafnt hve mörg þau eru eftir því hvaða starf er verið að ráða í. Að því loknu tekur við námskeið. Næst fer fram vinnudagur þar sem verðandi starfsmaður ver heilum degi í fundarherbergi ásamt stjórnendateymi hótelsins, þar sem gengið er úr skugga um að starfsmaðurinn búi yfir þekkingu á EDITION-vörumerkinu, hvað það standi fyrir, hver gildi þess eru og hvers konar upplifun við viljum búa til fyrir gesti."

Því næst taki við það sem kallað sé vottunarferli, sem feli í sér að starfsmaðurinn hafi tvær vikur til þess að undirbúa sig fyrir þríþættan spurningalista. „Sá fyrsti snýr að vörumerkinu, annar um hótelið sjálft og sá þriðji um eðli starfsins sem viðkomandi er ráðinn í. Fjöldi spurninga ræðst einnig af eðli starfsins en þegar verið er að ráða stjórnendur geta þær til að mynda verið hátt í tvö hundruð talsins," segir Dennis. Til þess að komast í gegnum vottunarferlið þarf aðilinn að skora að minnsta kosti 85 af 100 stigum. „Þegar fólk hefur lokið þessu ferli telst það tilbúið til þess að hefja störf og þá höfum við stjórnendur hótelsins fengið þá vissu að í a.m.k. 85% tilfella sem gestir bera á borð spurningar geti starfsmaðurinn veitt svör."

„Við gerum þetta vegna þess að  EDITION leggur áherslu á að allir starfsmenn séu í forsvari fyrir vörumerkið. Þegar leitað er til þeirra með spurningar viljum við að þeir hafi þekkingu og sjálfstraust til þess að svara spurningum sem brenna á gestum. Hver einasti starfsmaður á því að geta staðið í móttöku hótelsins, haft vitneskju um vörumerkið og þjónustað gestinn á þann hátt sem ætlast er til," bætir hann við.

Nánar er rætt við Dennis Jung í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér