„Allir eru að tala um Ísland eins og stendur og það er, tel ég, að hluta til vegna þess að allir eru að skortselja Ísland. Maður heyrir af miðlurum sem er leynt og ljóst að reyna að ná niður bæði íslensku verðbréfum og íslensku krónunni.”

Þetta sagði Richard Portes, prófessor við London Business School,  í viðtali  við bandarísku CNBC sjónvarpsstöðina þar sem rætt var um stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands, ástand efnahagsmála og stöðu bankanna á Íslandi.

Portes sagðist vera þeirrar skoðunar að of mikið hafi verið gert úr vanda íslensku bankanna, þeir væri góðir og vel reknir bankar og undirstöður þeirra væru betri en flestra annarra norrænna banka sem menn bæru þá saman við og auk þess ætti þeir heldur engin „eitruð verðbréf”.

Portes sagði að dregið hefði úr og halda myndi áfram að draga úr viðskiptahallanum en sagði verðbólguna á Íslandi vera „raunverulegt vandamál” en með nauðsynlegri hægingu í íslenska hagkerfinu muni draga úr verðbólgu; vöxturinn á Íslandi hefði einfaldlega verið of mikill.

---------------------------------------------------------

Nánar verður fjallað um málið í Viðskiptablaðinu á morgun. Áskrifendur geta, frá kl. 21 í kvöld lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .