Forsvarsmenn stjórnmálaflokkanna eru allir sammála um mikilvægi þess að afnema beri gjaldeyrishöftin, en eru þó með mismunandi áherslur hvað varðar leiðir úr vandanum. Kom þetta fram á fundi VÍB og Kauphallarinnar um stefnu flokkanna fyrir atvinnulífið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, sagði að það þurfi ekki að taka langan tíma afnema gjaldeyrishöft, en leysa þurfi snjóhengjuvandann svo það sé hægt. Hann sagði kröfuhafa gömlu bankanna vilja fara í nauðasamninga, en ríkisvaldið hafi það vald sem þurfi til að knýja fram ásættanlega niðurstöðu. Með því að nota löggjafar- og skattlagningarvaldið sé hægt að flýta fyrir afnámi hafta.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, benti á að höftin áttu upphaflega aðeins að vera til tveggja ára, en þau séu hér enn. Nú hafi verið náð utan um verkefnið, þar sem þrotabúin séu búin að kortlegga eignir sínar og skuldir. Áður en það var gert var erfitt að sjá leið úr vandanum. Hann sagði að það sem þurfi að gera sé að afskrifa hluta krafna á gömlu bankana. Höftin hafi verið sett þar sem ekki hafi verið hægt að hleypa þessum gjaldeyri úr landinu. Núna sé vitað hvað stóran hluta af kröfunum þurfi að afskrifa. Ekki eigi að afnema höft nema með því að afskrifa krónueignirnar að verulegu leyti. Ef samningar við kröfuhafa takist ekki verði að hafa í handraðanum ítrustu kröfur og ef í harðbakkan slær eigi ekki að hika við að beita tólum eins og því að setja gömlu bankana í gjaldþrotameðferð.

Varar við valdbeitingu

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, lagði á það áherslu að takast eigi á við vandann með fjármálalegan stöðugleika í huga. Einnig eigi að horfa til þess að þó að hægt sé að leysa ákveðinn vanda eins og snjóhengjuna verði útflæðisþrýstingur á gjaldeyri ennþá vandamál. Til að hægt sé að afnema höft verði að vera tiltrú á framtíðarverðmætasköpunargetu hagkerfisins. Þegar framtíð peningamála er óljós sé erfitt að sjá hvernig eigi að byggja upp slíka tiltrú á hagkerfinu.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri-grænna, sagði að alltaf hafi elgið fyrir að krónueignir kröfuhafanna yrðu verðfelldar, og að VG hafi lagt það til að það yrði gert með skattlagninu. Aðrar leiðir séu vissulega færar. En þó að haftaspurningunni sé svarað verði krónan ennþá lítill gjaldmiðill í opnu hagkerfi. Evran sé hins vegar spurning um annað og meira en bara að taka upp nýjan gjaldmiðil.

Smári McCarthy, talsmaður Pírata, varaði við valdbeitingu til lausnar á gjaldeyrishöftunum. Markaðurinn muni bregðast er við slíkri valdbeitingu. Hann sagði að höftin verði ekki afnumin nema að Ísland þoli 20% verðfellingu á krónunni. Uppboð Seðlabankans séu skref í rétta átt, en meira þurfi til. Til að minnka útflæðisþrýsting þurfi að styrkja atvinnulífið.

Heiða Kristín Helgadóttir, talsmaður Bjartrar framtíðar, sagði vanda gjaldeyrishöftin stærra mál en svo að það væri eins flokks að leysa það vandamál. Samstarf milli stjórnmálaflokka sé nauðsynleg forsenda lausnar.