Allir nefndarmenn í peningastefnunefnd samþykktu tillögu seðlabankastjóra um 0,75% stýrivaxtalækkun við síðustu stýrivaxtaákvörðun þann 22. september. Seðlabankinn birti fundargerð peningastefnunefndar í dag.

Nefndarmenn ræddu möguleika á að lækka vexti um 0,5 til 1,25 prósentur. Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, lagði til að vextir yrðu lækkaðir um 0,75% og samþykktu allir tillöguna, þó vilji hafi verið bæði til meiri og minni lækkunar.

Rök þeirra sem vildu lækka vexti minna en 0,75% voru þau að aðhald peningastefnunnar þyrfti að vera meira þar sem styttist í afnám gjaldeyrishaftanna. Þeir sem vildu taka stærra skref bentu á að að aðhald peningastefnunnar mælt með raunvöxtum væri líklega vanmetið.

Er það vegna þess að mæld verðbólga endurspeglaði fyrst og fremst gengisbreytingar síðastliðna tólf mánuði. Þá sögðu þeir að aðhald peniningastefnunnar væri of mikið í ljósi slæmrar stöðu þjóðarbúskapsins og væntanlegs aðhalds í ríkisfjármálum.

„Nefndin telur að eitthvert svigrúm sé enn til staðar til áframhaldandi slökunar peningalegs aðhalds haldist gengi krónunnar stöðugt eða styrkist og hjaðni verðbólga eins og spáð er,“ segir í fundargerðinni. „Áætlanir um afnám hafta á fjármagnshreyfingar skapa hins vegar óvissu um hversu mikið svigrúmið er til skemmri tíma. Nefndin er reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt er með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.“

Eftirtaldir nefndarmenn sátu fundina:

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri og formaður nefndarinnar

Arnór Sighvatsson, aðstoðarseðlabankastjóri

Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur

Anne Sibert, prófessor, utanaðkomandi nefndarmaður

Gylfi Zoëga, prófessor, utanaðkomandi nefndarmaður