*

mánudagur, 1. júní 2020
Innlent 27. febrúar 2018 12:15

Allir í stjórn Origo vilja sitja áfram

Ný stjórn tæknifyrirtækisins verður kosin á aðalfundi 2. mars næstkomandi en stjórnarmenn frá fyrra ári bjóða sig fram áfram.

Ritstjórn

Allir frambjóðendur til stjórnar á aðalfundi Origo 2. mars 2018 sitja í núverandi stjórn og virðist hún því ætla að verða endurkjörin.

Hafa stjórnarmenn setið mislengi, sá sem lengst hefur verið viðloðandi stjórnina er Guðmundur Jóhann Jónsson en hann hefur verið ýmist í stjórn eða varastjórn félagsins, sem áður hét Nýherji, frá því fyrir aldamót.

Frambjóðendurnir eru samkvæmt tilkynningu félagsins:

  • Emilía Þórðardóttir verkefnastjóri, fædd 1977, en hún kom í stjórnina í mars 2016.
  • Guðmundur Jóhann Jónsson forstjóri tryggingafélagsins Varðar, fæddur 1959, en hefur setið ýmist í stjórn eða varastjórn frá árinu 1999.
  • Hildur Dungal lögfræðingur hjá innanríkisráðuneytinu, fædd 1971, hefur setið í stjórn frá því í febrúar 2011.
  • Ívar Kristjánsson framkvæmdastjóri ATMO Select ehf., fæddur 1969 er stjórnarformaður, en hann tók sæti í stjórn Nýherja í mars 2016.
  • Loftur Bjarni Gíslason, útgerðarstjóri frystiskipa hjá HB Granda hf., fæddur 1974 tók sæti í stjórninni í mars 2014.

Jafnframt hefur Hjalti Þórarinsson gefið kost á sér til kjörs varamanns í stjórn Origo hf. áfram en hann tók sæti varamanns í mars 2017. Hann leiðir viðskiptaþróun á sviði gervigreindar hjá Microsoft.

Samkvæmt samþykktum félagsins skal kjósa fimm í stjórn og einn varamann. Það er mat stjórnar að öll framboð séu gild sbr. 63 gr. hlutafélagalaga og að allir frambjóðendur séu óháðir Origo hf.

Stikkorð: Nýherji aðalfundur stjórn Origo