Fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur birt lista yfir alla þátttakendur í útboði Bankasýslu ríkisins á 22,5% hlut í Íslandsbanka sem fór fram fyrir tveimur vikum þrátt fyrir afstöðu Bankasýslunnar um að óvarlegt sé að gera yfirlitið aðgengilegt almenningi. Listann má finna hér .

Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins segir að ráðuneytið hafi fengið listann afhentan í dag eftir að hafa óskað eftir listanum fyrir viku síðan.

Bankasýslan og lögfræðirágjafar hennar töldu óvarlegt að birta upplýsingar um mótaðila ríkisins í viðskiptunum með vísan í lög um fjármálafyrirtæki sem varða bankaleynd. Í minnisblaði frá LOGOS til Bankasýslunnar, dagsett 28. mars, sem stofnunin birti rétt í þessu kemur fram eftirfarandi álit:

„Ákvæði persónuverndarlaga girða fyrir miðlun eða opinbera birtingu upplýsinga um einstaka bjóðendur í útboðinu og úthlutanir til þeirra er einstaklingar eiga í hlut nema fyrir liggi samþykki. Lögin koma þó ekki í veg fyrir að Bankasýsla ríkisins birti tölfræðiupplýsingar eða aðrar ópersónugreinanlegar upplýsingar um útboðið.“

Ráðuneytið óskaði einnig eftir afstöðu fjármálaeftirlits Seðlabankans en hefur ekki borist svar þaðan.

Sjá einnig: 209 fjárfestar tóku þátt í útboðinu

„Ráðuneytið hefur nú lagt sjálfstætt mat á þær röksemdir sem settar hafa verið fram fyrir því að framangreint yfirlit falli undir bankaleynd. Að mati ráðuneytisins falla upplýsingar um viðskipti á milli ríkissjóðs og fjárfesta ekki undir bankaleynd og með hliðsjón af mikilvægi þess að gagnsæi ríki um ráðstöfun opinberra hagsmuna hefur ráðherra ákveðið að birta yfirlitið,“ segir í tilkynningunni.

Nánar verður fjallað um söluferli á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka í Viðkiptablaðinu sem kemur út á morgun.