Íbúðafjárfesting dróst mikið saman á fyrri helmingi ársins eða um 13,3%. Lítið hefur verið byggt af nýjum íbúðum undanfarin ár og hafa Samtök iðnaðarins og verktakar gagnrýnt háan byggingarkostnað, stífa byggingarreglugerð og hátt lóðarverð sveitarfélaga. Á sama tíma og framboð af ódýru húsnæði er lítið er eftirspurnin mikil, sérstaklega á meðal ungs fólks.

Til að bregðast við ástandinu boðuðu stjórnvöld til fundar í gær þar sem saman voru komnir allir hagsmunaaðilar á húsnæðismarkaði. Eygló Harðardóttir húsnæðismálaráðherra segir að fundurinn hafi verið mjög góður.

„Allir voru sammála um það að við þurfum að taka höndum saman og að allir gætu gert eitthvað til að lækka byggingarkostnað," segir Eygló. „Annað sem fólk var sammála um var að nauðsynlegt væri að auka sveigjanleika í skipulagsferlinu, byggingarreglugerðinni og hvar og hvernig við byggjum."

Eygló segir að 10 til 15 aðilar komi að byggingu húss. Ef hver og einn væri með jafnt hlutfall í byggingarkostnaðinum og gæti lækkað kostnað hjá sér um 1% þá myndi það þýða heildarlækkun upp á 10 til 15%.  Hún segir að vel hafi verið tekið í þessa hugmynd á fundinum.

Að sögn Eyglóar var á fundinum töluvert talað um háan fjármögnunarkostnað á byggingartíma.„Ef við getum byggt vandað, hagkvæmt og hratt, stytt byggingartímann, þá getum við dregið úr þessum kostnaði. Hátt lóðaverð hefur einnig verið gagnrýnt. Mikilvægt er að fara yfir gjaldskrár sveitarfélaganna og leita leiða til að lækka lóðaverðið. Á fundinum var viðruð sú hugmynd að byggingaraðilar myndu opna sitt bókhald þannig að hægt væri að sýna fram á að lægra lóðarverð skilaði sér áfram til kaupenda íbúðanna."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .