*

miðvikudagur, 26. janúar 2022
Innlent 17. nóvember 2020 12:35

Allir landsmenn fái 3.000 krónur

Sjálfstæðismenn í borginni leggja fram 5 tillögur, m.a. um frestun gjalda og skatta, vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins.

Ritstjórn
Marta Guðjónsdóttir, Eyþór Arnalds oddviti og Hildur Björnsdóttir eru meðal borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.
Haraldur Guðjónsson

Sjálfstæðismenn í borgarstjórn vilja að ferðaþjónustufyrirtæki geti fengið frest á greiðslu fasteignagjalda, og byggingaverktakar geti dreift eða frestað greiðslum byggingarréttargjalda. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja tillögurnar fram á fundi borgarstjórnar, sem hefst kl. 14:00 í dag, en flokkurinn sem er sá stærsti í borgarstjórn situr í minnihluta.

Aðgerðirnar, sem eru í fimm liðum er ætlað að hjálpa fyrirtækjum og einstaklingum til viðspyrnu vegna heimsfaraldurs COVID -19. Lagt er til að borgarstjórn samþykki að fresta greiðslum fasteignagjalda í ferðaþjónustu með útgáfu skuldabréfa, að borgin gefi öllum Íslendingum 3.000 króna Borgargjöf sem ætlað er að vera viðnámsstyrkur til rekstraraðila í Reykjavík í gegnum erfiðan vetur.

Einnig að ráðist verði í markvissar aðgerðir til stuðnings húsnæðisuppbyggingu og byggingaiðnaði í Reykjavík, sem taka mið af helstu úrbótatillögur OECD sem snúa að lækkun opinberra gjalda á borð við gatnagerðargjöld og endurskoðun ferla vegna lóðaúthlutana.

Þá er lagt til að koma á sérstöku ráðgjafartorgi fyrir fólk í vanda. Félög háskólastúdenta yrðu virkjuð í því skyni. Háskólanemar á sínum sérsviðum yrðu tímabundið fengnir til að sinna hinni ýmsu ráðgjöf undir handleiðslu sérfræðinga, s.s. á sviði fjármála, lögfræði, félags- og sálfræði. Loks er lagt til að tryggja aðgang grunnskólabarna að matarþjónustu í skólum borgarinnar þrátt fyrir skert skólahald.

Kórónuveirufaraldurinn hefur valdið miklu tekjufalli hjá rekstraraðilum í borginni. Reykjavíkurborg getur lagt sitt af mörkum með viðspyrnuaðgerðum sem halda súrefni í rekstri fyrirtækjanna í borginni í vetur. Markmið aðgerðanna er m.a. að verja störf og útsvarsstofn borgarinnar og aðstoða borgarbúa sem eiga í vanda.

Frestun fasteignaskatta á fyrirtæki

Samþykkt verði að taka hugmyndir og erindi SAF sem snýr að því að fresta greiðslu fasteignagjalda með útgáfu skuldabréfa til útfærslu og úrvinnslu. Jafnframt beiti borgin sér fyrir því að lögum um lögveð verði breytt þannig að farið verði í lengingu í lögveði fasteignaskatta með hliðstæðri lagasetningu og gripið var til eftir efnahagshrunið.

Fjármála- og áhættustýringarsviði verði falið að vinna að frekari útfærslu og skili borgarráði þeirri vinnu fyrir 1. desember.

Jafnframt er lagt til að samþykkt verði að Reykjavíkurborg gefi öllum landsmönnum, 18 ára og eldri, ferðagjöf að upphæð 3000 kr. sem hægt verður að nota í Reykjavík, hjá öllum þeim aðilum sem aðild eiga að ferðagjöfinni, sbr. vefsvæðið ferdalag.is.

Lagt er til að tillagan verði fjármögnuð með gerð viðauka við fjárhagsáætlun 2020 þar sem 100 milljónir fari af liðnum ófyrirséð til fjármögnunar tillögunni. Þá er lagt til að 260 milljónir fari inn í fjárhagsáætlun næsta árs. Ferðagjöf borgarinnar taki gildi 15. desember nk. og gildi til 31. maí 2021.

Lækkun gatnagerðargjalda á öll hús nema einbýli

Ráðist verði í markvissar aðgerðir til stuðnings húsnæðisuppbyggingu og byggingaiðnaði í Reykjavík, þar sem Fjármálaskrifstofu borgarinnar verði falið að móta almennar reglur um tímabundna greiðsludreifingu og/eða greiðslufresti byggingaréttargjalda.

Meðal tillagna er að gatnagerðargjöld verði lækkuð með eftirfarandi hætti, til samræmis við lægstu gjöld í nágrannasveitarfélögum, þar sem endanlega greiðslan verði sem hér segir:

  • 1.    Einbýlishús með eða án tvíbýlisaðstöðu        34.785 kr/fm  (óbreytt)
  • 2.    Raðhús, parhús, tvíbýlishús og keðjuhús      23.886 kr/fm  (lækkun)
  • 3.    Fjölbýlishús                                                    11.363 kr/fm  (lækkun)
  • 4.    Annað húsnæði                                             19.712 kr/fm  (lækkun)

Jafnframt að veittir verði eftirfarandi afslættir af gatnagerðargjöldum og byggingaréttargjöldum vegna Svansvottaðra eða BREEAM vottaðra bygginga:

  • 1.     Svansvottun  20% afsláttur
  • 2.     BREEAM einkunn 55% (“Very good”) 20% afsláttur
  • 3.     BREEAM einkunn 70% (“Excellent”) 30% afsláttur

Ráðgjafatorg fyrir fólk í vanda verði sett á fót

Komið verði upp tímabundnu ráðgjafatorgi á vegum velferðarsviðs til að þjónusta borgarbúa, þar sem þörf fyrir ráðgjöf hefur aukist umtalsvert á tímum kórónuveirufaraldursins. Aukin þörf fyrir ráðgjöf er m.a. tilkomin vegna vaxandi atvinnuleysis, farsóttarþreytu, félagslegrar einangrunar og kvíða vegna faraldursins.

Í boði verði fjölbreytt ráðgjöf á einum stað sem verði veitt með fjarviðtölum, netspjalli, síma og ef ástæða þykir til með viðtali á þjónustumiðstöð. Um verði að ræða m.a. almenna félagsráðgjöf, sálfræðiráðgjöf og fjármálaráðgjöf.

Börn njóti matarþjónustu í grunnskólum þrátt fyrir skert skólahald

Samþykkt verði að  tryggja öllum börnum sem stunda nám í grunnskólum Reykjavíkurborgar matarþjónustu í skólanum á meðan skólastarf er skert vegna Kórónuveirufaraldursins. Vegna sóttvarna hefur sums staðar ekki verið unnt að starfrækja mötuneyti vegna sóttvarnaraðgerða.

Mikilvægt er að tryggja að öll börn fái máltíð engu að síður svo jafnræðis sé gætt. Skóla- og frístundasviði verði falið að vinna að lausn sem lögð verði fyrir skóla- og frístundaráð hið fyrsta.