Hlutabréf hækkuðu beggja megin Atlantshafsins í dag. Bloomberg fréttaveitan greinir þannig frá að von fjárfesta í Evrópu um úrlausnir evrópskra þjóðarleiðtoga á skuldavanda ríkja innan ESB hafi ýtt mörkuðum upp í Evrópu. Aftur á móti hafa jákvæðar tölur um mikla veltu í smásöluverslun í Bandaríkjunum um helgina og aukin sala á nýju húsnæði ýtt mörkuðum upp í Bandaríkjunum.

Allar helstu hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hækkuðu sem fyrr segir. Þannig hækkaði Nasdaq vísitalan um 3%, Dow Jones um 2,2% og S&P 500 vísitala um 2,4%.

Í Evrópu hækkuðu hlutabréf nokkuð meira á flestum stöðum. Í Frankfurt hækkaði DAX vísitalan um 5%, París hækkaði CAC 40 vísitalan um 5,5% og í Lundúnum hækkaði FTSE 100 vísitalan um 2,9%.

Þá hækkuðu hlutabréf jafnframt á Norðurlöndunum. Í Kaupmannahöfn hækkaði OMXC vísitalan um 2,1%, í Stokkhólmi hækkaði OMCS vísitalan um 3,8% og í Osló hækkaði OBX vísitalan um 3,9%.