Hlutabréf hafa lækkað það sem af er degi í Evrópu, Bandaríkjunum og Asíu og hér á landi.

Í Evrópu eru það bankar og fjármálafyrirtæki sem leiða lækkanir dagsins að sögn Reuters fréttastofunnar. Þannig hefur FTSEurofirst 300 vísitalan lækkað um 1,6% það sem af er degi.

Bankar í Evrópu lækka nokkuð hratt en til að mynda hefur Barclays lækkað um 5%, Deutsche Bank um 4,2% og UBS um 5,3% svo dæmi séu tekin.

Í Lundúnum hefur FTSE 100 vísitalan lækkað um 1,1%, í Amsterdam hefur AEX vísitalan lækkað um 0,7% og í Frankfurt hefur DAX vísitalan lækkað um 1,6%.

Í París hefur CAC 40 vísitalan lækkað um 1,6% og í Sviss hefur SMI vísitalan lækkað um 1,3%.

Á Norðurlöndunum er svipaða sögu að segja en í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 1,2%, í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 0,9% og í Stokkhólmi hefur OMXS vísitalan lækkað um 1,7%.

Hér á landi hefur Úrvalsvísitalan lækkað um 0,8%.

Í Bandaríkjunum voru í morgun birtar tölur sem gefa til kynna að smásala vestanhafs dróst saman um 0,1% í júlí og er það í fyrsta skipti í fimm mánuði sem smásala þar í landi dregst saman að sögn Bloomberg fréttaveitunnar.

Svo virðist sem fjárfestar hafi tekið illa í þessar fréttir en þá greinir Bloomberg frá því að afkomuviðvörun JP Morgan í gær hafi valdið skjálfta á Wall Street.

Nú hafa markaðir verið opnir í um klukkustund á Wall Street en Nasdaq hefur lækkað um 0,1%, Dow Jones um 0,9% og S&P 500 um 0,6%.

Eins og greint var frá í morgun lækkuðu markaðir einnig í Asíu.