Hér á Íslandi hefur Úrvalsvísitalan [ OMXI15 ] lækkað um 3% það sem af er degi og stendur nú í 4.854 stigum. Ef fer sem horfir verður þetta fimmti viðskiptadagurinn í röð sem Úrvalsvísitalan lækkar.

Í Evrópu hafa markaðir einnig lækkað og segir Reuters fréttastofan svissneska bankann UBS leiða lækkanir dagsins ásamt öðrum fjármálafyrirtækjum en bankinn hefur lækkað um 5,3% eftir að hafa kynnt uppgjör sitt í morgun.

FTSEurofrist 300 vísitalan hefur lækkað um 1% það sem af er degi. Þá hefur FTSE 100 vísitalan í Lundúnum lækkað um 0,8%, AEX vísitalan í Amsterdam um 0,9%, DAX vísitalan í Frankfurt um 1,1% og CAC 40 vísitalan í París um 1%.

Í Kaupmannahöfn hefur OMXC vísitalan lækkað um 0,8% og í Osló hefur OBX vísitalan lækkað um 0,9% eftir að hafa hækkað um 0,4% við opnun markaða í morgun.

Í Bandaríkjunum hafa hlutabréf einnig lækkað síðan opnað var fyrir viðskipti kl. 13:30 að íslenskum tíma. Nasdaq hefur lækkað um 0,5%, Dow Jones um 0,6% og S&P 500 um 0,4%.

Þá lækkuðu markaðir í Asíu í morgun.