*

laugardagur, 18. september 2021
Innlent 24. mars 2016 14:02

Allir munu funda saman

Þjóðhagsráð tekur til starfa í byrjun apríl. Það verður vettvangur fyrir skoðanaskipti milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins.

Ólafur Heiðar Helgason
Styrmir Kári

Þjóðhagsráð er nýr vettvangur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins sem tekur til starfa á næstu dögum. Hlutverk Þjóðhagsráðs verður að greina stöðuna í efnahagsmálum og ræða samhengi ríkisfjármála, peningastefnu og vinnumarkaðar í tengslum við helstu viðfangsefni hagstjórnar hverju sinni. Á fyrsta fundi sínum, sem verður í byrjun apríl, munu aðilar að ráðinu skrifa undir samkomulag um hlutverk og umgjörð ráðsins.

Kveðið var á um stofnun Þjóðhagsráðs í samkomulagi aðila á vinnumarkaði um nýja umgjörð kjarasamninga, hinu svokallaða SALEK-samkomulagi, sem skrifað var undir í október. Áður hafði ríkisstjórnin lýst sig tilbúna til að hafa aðkomu að slíku ráði. Aðilar að Þjóðhagsráði eru forsætisráðherra, fjármála- og efnahagsráðherra, ASÍ, BSRB, SA, Samband íslenskra sveitarfélaga og Seðlabanki Íslands.

Allir aðilar komi saman

Benedikt Árnason, skrifstofustjóri þjóðhagsmála í forsætisráðuneytinu, er formaður undirbúningshóps vegna stofnunar Þjóðhagsráðs. Hann segir að það muni koma í ljós strax eftir páska hvort góð samstaða sé um fyrirkomulagið.

Benedikt segir að Þjóðhagsráði sé, ásamt nýju vinnumarkaðslíkani og lögum um opinber fjármál, ætlað að búa til stöðugri efnahagsumgjörð hér á landi. Hann segir að þótt aðilarnir sem komi að Þjóðhagsráði kunni að hafa ólíkar skoðanir á pólitík eða skiptingu gæða séu allir sammála um að viðhalda efnahagslegum stöðugleika.

„Aðilar vinnumarkarins hafa mikla skoðun á peningastefnu Seðlabankans og ríkisfjármálunum. Stundum hafa ráðherrar verið að gefa peningastefnu Seðlabankans gaum eða kvartað undan kjarastefnunni. Seðlabankinn kvartar undan ríkisfjármálunum.

Oft er það þó þannig að aðilar vinnumarkaðarins hitta seðlabankastjóra eða seðlabankastjóri hittir oddvita ríkisstjórnarinnar, það eru mikil samskipti á milli aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarinnar. En það hefur í sjálfu sér ekki verið neinn vettvangur, og afskaplega fáir fundir, þar sem þessir aðilar koma allir saman og freista þess að ræða þetta í samhengi,“ segir Benedikt.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.