Allir sakborningar neituðu sök við þingfestingu Milestone-málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Málið snýst um kaup Milestone á hlut Ingunnar Wernersdóttur í félaginu fyrir 4,8 milljarða króna á árunum 2006 til 2007. Embætti sérstaks saksóknara ákærði bræðurna Karl og Steingrímur Wernerssynir fyrir umboðssvik og brot á lögum um bókhald og ársreikninga í tengslum við viðskiptin en þeir áttu meirihluta í Milestone. Auk þeirra eru ákærðir Guðmundur Ólason, fyrrum framkvæmdastjóri Milestone, og þrír endurskoðendur hjá endurskoðendaskrifstofunni KPMG.

Endurskoðendur ákærðir

Endurskoðendurnir eru þau Hrafnhildur Fanngeirsdóttir, Margrét Guðjónsdóttir og Sigurþór Charles Guðmundsson. Þeim er gert að sök að hafa framið meiri háttar brot gegn lögum um ársreikninga og lögum um endurskoðendur í störfum sínum við endurskoðun ársreikninga Milestone og samstæðureikninga Milestone samstæðunnar fyrir árin 2006 og 2007.

Fram kemur í ákærunni að greiðslurnar til Ingunnar bárust henni mánaðarlega á grundvelli samkomulags um að hún léti af hendi öll bréf sem hún átti í félaginu. Ingunn er ekki ákærð í málinu á grundvelli þess að hún var ekki í formlegri aðstöðu til að skuldbinda Milestone með þeim hætti sem sérstakur saksóknari telur hafa verið refsiverður.