Bankaráðsmenn Landsbankans gamla og stjórnendur bankans, Halldór J. Kristjánsson og Sigurjón Árnason, hafa fengið sent bréf frá slitastjórn og skilanefnd bankans þar sem misferli í starfsemi bankans og meint lögbrot eru sögð geta varðað við skaðabótaábyrgð upp á sem nemur 36 milljörðum króna.

Björgólfur Guðmundsson, sem var formaður bankaráðs Landsbankans, er ekki einn þeirra sem fengið hefur fyrrnefnt bréf þar sem hann er gjaldþrota, að því er Páll Benediktsson, upplýsingafulltrúi skilanefndar Landsbankans, sagði við Viðskiptablaðið. Landsbankinn gerði hins vegar kröfu í bú Björgólfs.

Stjórnarmönnunum og stjórnendum hefur verið gefinn kostur á að bregðast við með andmælum áður en endanleg ákvörðun verður tekin um frekari rannsóknir og skaðabótamál. Í stjórn bankans fyrir hrun sátu auk Björgólfs, Kjartan Gunnarsson varaformaður, Svafa Grönfeldt, Andri Sveinsson og Þorgeir Baldursson.

Árétting : Þór Kristjánsson var ekki einn þeirra sem fékk bréf frá slitastjórn og skilanefnd, og eins og lesa mátti út úr fyrri frétt. Hann fór úr stjórninni á aðalfundi 2008. Andri Sveinsson tók sæti hans í stjórn.