*

sunnudagur, 1. ágúst 2021
Innlent 24. október 2017 13:59

Allir nema Píratar vilja lækka

Fulltrúar allra flokka sögðust vilja lækka tryggingargjaldið á fundi SI nema Helgi Hrafn Pírati.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Fulltrúar allra flokka á fundi Samtaka iðnaðarins með forystufólki stjórnmálaflokkanna nema Pírata lýstu sig reiðubúna til að lækka tryggingargjaldið.

Á fundinum spurði Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI hvort tryggingargjaldið yrði lækkað á fyrsta starfsári nýrrar stjórnar ef þeirra flokkur kæmist til valda. Óskaði hann eftir því að fá einfalt já eða nei svar við spurningunni, en enginn þeirra varð við því eins og fram kemur fram á síðu félagsins.

Hins vegar voru svör flestra þeirra á sömu leið, að lækka ætti gjaldið. Björt Ólafsdóttir í Bjartri framtíð sagði að það hefði verið á dagskrá hjá fyrri ríkisstjórn „en okkur entist ekki alveg árið til þess.“

Þorsteinn Víglundsson fulltrúi hins flokksins sem klauf ríkisstjórnina, Viðreisnar, sagði að taka þyrfti tvö eða þrjú skref til þess, meðan Lilja Alfreðsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins segir að flokkurinn vilji gera það sérstaklega fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna tóku jafnframt undir það, þó Katrín Jakobsdóttir frá VG sagði að það þyrfti að gerast í áföngum. Hins vegar sagði Sigríður Á. Andersen fulltrúi Sjálfstæðisflokksins það vera mjög brýnt að lækka tryggingargjaldið.

Eini fulltrúinn sem ekki tók undir um nauðsyn þess að lækka gjaldið, Helgi Hrafn Gunnarsson frá Pírötum sagði að ekki væru hugaðar breytingar á tryggingargjaldinu í stefnu flokksins.