Margrét Sanders, formaður SVÞ, segir að verðhækkanir verslana á mjólkurvörum á undanfarin ár hafi ekki haft teljandi áhrif á vísitölu neysluverðs.

„Okkar þáttur hjá versluninni í neysluverðsvísitölunni hefur orðið til þess að neysluverðsvísitalan hefur hækkað mjög lítið og verðbólgan í landinu er sögulega lág og búin að vera lág," er haft eftir Margréti í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„En við erum ekki að gagnrýna og segja að tæp 4% hækkun á mjólkurvörum frá 1. október 2013 sé eitthvað óeðlileg. Við erum að segja að það sé óeðlilegt að ákvörðunin sé tekin af verðlagsnefnd búvara og að það líði bara hreinlega allt of langt á milli," bætir hún við.

Margrét segir að of langt líði á milli ákvarðana verðlagsnefndarinnar, sem geti komið sér illa fyrir alla sem eiga hlut að máli. „Núna erum við á virkilega erfiðum tíma varðandi kjarasamninga," segir hún.

Margrét segir að allir sem eigi hlut að máli séu óánægðir með fyrirkomulagið.