Allir sakborningar voru sakfelldir í Stím málinu, en Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm sinn klukkan tvö í dag.

Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis var dæmdur til fimm ára fangelsisvistar. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóra Saga Capital var dæmdur til 18 mánaða fangelsis. Jóhannes Baldursson, einn stjórnenda Glitnis var dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar. Til frádráttar dómunum kemur sá tími sem sakborningar höfðu sætt gæsluvarðhaldi.

Stím-málið snýst um það að Stím keypti hlutabréf í Glitni og FL Group fyrir tæplega 25 milljarða króna þann 14. nóvember 2007 af Glitni. Um 20 milljarðar króna voru fengnir að láni hjá Glitni og viðskiptin voru teiknuð upp af starfsmönnum bankans.

Eru þeir ákærðir fyrir umboðssvik í tengslum við lánveitingu Glitnis, þar sem félagið Stím fékk 20 milljarða að láni frá bankanum til að kaupa hlutabréf í Glitni og FL Group árið 2007.