Greiningardeild Arion banka telur víst að peningastefnunefnd Seðlabankans kjósi að halda stýrivöxtum óbreyttum á vaxtaákvörðunarfundi næstkomandi miðvikudag.

Þá hafa greiningardeildir stærstu bankanna þriggja, Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, allar gefið út stýrivaxtaspá sína og eru þær einhuga um að stýrivöxtum verði ekki haggað.

Greiningardeild Arion banka nefnir einkum tvennt máli spá sinni til stuðnings. Í fyrsta lagi hafi peningastefnunefnd tilhneigingu til þess að herða tóninn í yfirlýsingum sínum áður en stýrivöxtum er breytt og gefa þannig viðvörun um það sem koma skal. Slíkar viðvaranir sé ekki að finna í fundargerð síðasta vaxtaákvörðunarfundar.

Í öðru lagi bendir greiningardeildin á að lítið hafi gerst í íslensku efnahagslífi frá síðasta fundi nefndarinnar, sem ætti að réttlæta breytingu á vöxtum.

Þá telur greiningardeild Arion banka að vextir verði ekki hækkaðir fyrr en eftir áramót.