Hanna Birna Kristjánsdóttir segist hafa gengið á alla starfsmenn innanríkisráðuneytis sem hún ætti regluleg samskipti við til að spyrja hvort einhver þeirra hefði lekið minnisblaði um Tony Omos til fjölmiðla. Allir hafi þeir neitað. Þetta kom fram í útvarpsviðtali Sigurjóns M Egilssonar við Hönnu Birnu á Bylgjunni í morgun.

Jafnframt hvatti hún Umboðsmann Alþingis til að rýna vel í öll samskipti sín við Stefán Eiríksson og aðra þætti málsins. Hún væri boðin og búin að velta öllum steinum í málinu, líkt og hún hefði verið frá upphafi þess.

Í þættinum benti Hanna Birna á að allir starfsmenn innanríkisráðuneytis hefðu haft aðgang að minnisblaðinu og því væri rangt að einblína bara á aðstoðarmenn hennar í tengslum við málið. Samskipti þeirra við ritstjóra mbl.is og Fréttablaðsins um það leyti sem minnisblaðið lak úr ráðuneytinu séu ekki óeðlileg, enda séu aðstoðarmennirnir í stöðugum samskiptum við fjölmiðla vegna mikils fjölda mála. Það sé því ekki hægt að draga neinar ályktanir af samskiptum aðstoðarmannanna við fjölmiðla.